Umfjöllun

Lífið í töfraspegli
Systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur sameina hér krafta sína í málverkinu. Þær hafa mismunandi nálgun við efnið, önnur málar þykkt og hin þunnt, en saman vinna þær sig áfram að niðurstöðu sem er oftar en ekki ævintýraheimur þar sem óvæntir hlutir gerast. Persónur úr Grimms-ævintýrum og slúðurfréttum dagblaðanna kallast þar á við þær systur í ýmsum múnderingum.

Samvinnan hefur leitt þær í gegnum skóg umbreytinga þar sem skipulögð vinna með ljósmyndir og myndvörpu hefur tekið við af lauslegu samspili klippimynda og málverks. Myndbygging sem var tilviljanakennd í byrjun er orðin markviss. Forsetahjónin sem voru uppundir rjáfri á myndfletinum fengu „tilfinningalegt svigrúm“ með smá viðbótarstriga, á meðan Tiger Woods nýtur hylli Mjallhvítar á golfvellinum. Verkin hafa einmitt orðið til á Korpúlfsstöðum, í nágrenni golfvallar, svo samspilið á milli veruleika og ímyndunar er á mörgum plönum.

Samstarf þeirra systra við gerð verkanna ætti að vera stjórnmálamönnum samtímans til fyrirmyndar því þau eru grundvölluð á jákvæðum samningaviðræðum um uppbyggingu og útfærslu, sem að vísu taka mislangan tíma, en eftir skipulagningarvinnuna leyfa þær Sara og Svanhildur breytingum að eiga sér stað innan rammans, leyfa sér spuna á meðan þær mála. Þannig taka verkin oftar en ekki breytingum í lit og flæði meðan þeim vindur fram í átt að frjórri og skemmtilegri útkomu. Við útfærsluna er reglan sú að báðar séu á staðnum í einu og hvorug má hreyfa við verkinu að hinni fjarstaddri. Þó þær hafi ólíkan stíl verður til einhver sérstakur bræðingur við samspilið og tónlist leikur sýnilega stóran þátt í sköpuninni. Raunar kalla þær athæfi sitt dúettmálun og líkja framlagi sínu við samsöng sópran- og altraddar. Tónlist er jafnan í bakgrunni þegar þær mála og litrík verkin spretta oft fram undir heitum suðrænum tónum.

Stemmningin í málverkunum er í senn draumkennd og léttleikandi. Þar er vísað út og suður, ekki aðeins í ævintýraheima heldur einnig í listasöguna. Edward Hopper og Frida Kahlo koma upp í hugann. Sjálfsmyndir Fridu Kahlo í ýmsum kringumstæðum vísuðu í retablos-hefðina í Mexíkó þar sem myndir voru gerðar í lækningaskyni eða til að átta sig á breyttum kringumstæðum. Fólk málaði slys sem það hafði lent í eða sjúkdóma og sjálfsmyndin var því oft þjökuð. Sjálfsmyndir Söru og Svanhildar virðast langt í frá þjakaðar en vera má að sjálfsmyndamálunin reynist þeim ákveðin þerapía. Með því að staðsetja sjálfar sig í þessum draumkenndu kringumstæðum þar sem allt getur gerst flyst upplifunin ósjálfrátt inn í verkið. Þær eru líkt og Lísa í Undralandi í einskonar töfraspegli og ýta undir þá upplifun með því að setja málverk inn í málverk inn í málverk þar sem sjónhverfingin verður alger.

Súrrealistar á borð við Dalí beittu þessari aðferð til að skapa draumveruleika. Sá leikur súrrealista sem kenndur er við frábært lík eða „cadavre exquis“ fólst einmitt í samvinnu þar sem tveir eða fleiri gerðu verk saman. Oftast var það þó framkvæmt þannig að undirbúningur og rökhugsun voru bannorð en það sem lá í loftinu átti að fá pláss á myndinni. Þær Sara og Svanhildur undirbúa sig vel og beita rökhugsun við verk sín en það er greinilegt að það sem liggur í loftinu fær líka pláss í töfraspegli þeirra.

Ólafur J. Engilbertsson

Comments are closed.