Sara & Svanhildur

Við systur Sara og Svanhildur Vilbergsdætur byrjuðum að þróa ákveðna vinnuaðferð sem við kjósum að kalla Dúettmálun síðsumars 2010. Í upphafi máluðum við nokkrar ævintýramyndir þar sem ýmsar persónur úr gömlu ævintýrunum fengu að hittast á striganum og spila saman golf, þar sem vinnustofan sem við vinnum í stendur á miðjum golfvelli Korpúlfsstaða. Fljótlega bættumst við sjálfar inní persónugalleríið, golfkylfunni var lagt og við fórum að skoða okkur í alls konar samhengi. Við vinnum hugmyndirnar saman alveg frá grunni, köstum þeim á milli, grípum og annaðhvort hendum eða prjónum við og víkkum út. 

Um leið og hugmynd að myndverki fæðist þá hefjast samningaviðræður hjá okkur um myndbyggingu og útfærslu og tekur sú vinna mislangan tíma. Að því ferli loknu hefst málunin og eina reglan, hvað vinnulag varðar, er sú að stranglega er bannað að mála í myndirnar nema við séum báðar á staðnum.
Við erum báðar menntaðar úr málaradeild MHÍ en höfum ólíkan stíl sem á einhvern undarlegan hátt rennur þó áreynslulaust saman í þessum dúettverkum, kannski sambærilegt við sópran og alt. Sjálfsmyndirnar sýna okkur í aðstæðum sem eru dæmigerðar fyrir okkur og við leitum fanga í persónulegri reynslu, gömlu ævintýrunum og í listasögunni svo eitthvað sé nefnt. 

Viðfangsefnin eru, svo nokkur dæmi séu nefnd: sameiginlegur reynsluheimur okkar, móðurhlutverkið, fjölskyldutengsl, sjálfsmyndakrísur, áhugamál og spaugilegar uppákomur í bland við römmustu alvöru og dramatík. Við getum líkt þessu við  “remix” eða sambræðing þekktra minna úr listasögunni, ævintýrum og okkar eigin lífshlaupi.
Merkingarmiðjan er konan og kvenleg reynsla. Við veltum m.a. fyrir okkur staðalímyndum kvenna, mátum okkur jafnvel við þær, ýkjum og skoðum með gagnrýnu hugarfari. 

Nýjar hugmyndir spretta viðstöðulaust upp úr þeim eldri og höfum við efnivið langt fram í tímann sem við höfum fullan hug á að koma í framkvæmd.

 

Comments are closed.