Umfjöllun Listasögunema

LIS214G Skrif um myndlist
Kennari: Anna Jóhannsdóttir

Ragnheiður Jónsdóttir
Háskóli Íslands vor 2012

Sam-mála systur

Um sýninguna Systrasögur – Tvíhent á striga, Listasafni ASÍ

Sara og Svanhildur Vilbergsdætur

Systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur opnuðu sýninguna Systrasögur-Tvíhent á striga í
Listasafni ASÍ á safnanótt þann 10. febrúar síðastliðinn. Báðar eru þær á miðjum aldri og fæddar á Ísafirði. Þær hafa hlotið menntun í myndlist, kennt sjálfar og haldið fjölda sýninga. Hins vegar byrjuðu þær ekki að mála saman fyrr en sumarið 2010. Sýningin í ASÍ er því þeirra fyrsta samsýning og vonandi ekki sú síðasta.

Systurnar mála saman og kalla það fjórhenta dúettmálun. Þær nota olíu á striga og
verkin eru töluvert stór, eða a.m.k. metri á hvora hlið, enda nóg um að vera á hverri mynd.
Eitt af því sem einkennir verkin er barnsleg gleði og kátína. Allir litir litahringsins virðast fá að njóta sín í gáskafullum og ævintýralegum myndunum sem kalla auðveldlega fram bros hjá
sýningargestum. Æsku- og ævintýramótífið blandast síðan skemmtilega saman við vísanir í
þekkt verk og listamenn, afþreyingu samtímans og fleira óvænt. Húmorinn er aldrei langt undan en kemur einna sterkast fram í sjálfsmyndunum og skemmtilegum titlum. Sara og Svanhildur virðast ekki taka sig of hátíðlega í listinni heldur hafa gaman af henni og þeim endalausu möguleikum sem málverkið býður upp á. Aðspurðar að því hvort einhverjar reglur gildi í samvinnunni segjast þær alltaf vera báðar á staðnum þegar þær máli og vinni þannig hverja mynd algerlega saman. Hvað varðar sjálfsmyndirnar þá segjast þær ávallt mála sig sjálfar en ekki hvor aðra. Systurnar mála misþykkt en hafa náð að samhæfa pensildrættina á undraverðan hátt því það er nánast ómögulegt að sjá hvor hefur málað hvað nema vita það. Ef til vill hefur skyldleikinn eitthvað með það að gera.

Myndirnar eru sjálfsævisögulegar og endurspegla áhugamál systranna og ástríður.
Myndlistin er auðvitað sameiginlegt áhugamál þeirra beggja og þær segjast remixa listasöguna
í verkum sínum. ,,Við erum dálítið að fara saman í gegnum listsöguna og skoða hana og erum
að máta okkur inn hér og þar og troða okkur inn í allskonar selskap” 1) En þær Sara og Svanhildur vísa í fleira en sögu listarinnar og stundum í þveröfugar áttir. Bandaríski golfarinn Tiger Woods kemur fyrir í þremur verkum og á einni mynd er höfuð leikarans George Clooney klippt inn á. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar og Dorrit forsetafrú sitja brosandi á bekk elstu myndarinnar Fugl undir pari þar sem einnig má sjá Mjallhvíti, jólasvein og fleiri fyrirbæri. Strigabút hefur verið bætt við myndina fyrir ofan forsetahjónin en hann á að tákna tilfinningalegt svigrúm. 2) Á annarri mynd Sex undir pari eru svo dvergarnir sem venjulega fylgja Mjallhvíti sjö saman en eru þarna ekki nema sex. Í listgagnrýni sinni í Fréttablaðinu fjallaði Ásmundur Ásmundsson um sýninguna og furðaði sig þar á vöntun sjöunda dvergsins. Honum fannst líklegt að verið væri að vísa í táknmál ævintýrisins um Mjallhvíti þar sem dvergarnir sjö tákna þroskastig sem stúlka fer í gegnum áður en hún verður að konu. Með því að sleppa lykildvergnum skapast andrúmsloft millibilsástands eða eilífrar æsku sem einkennir sýninguna í heild. 3)

Þrátt fyrir barnslegt yfirbragð má sjá vísanir í reynsluheim kvenna. Í Sex undir pari er
fljúgandi rúm mexíkanska listamannsins Fridu Kahlo og í því liggur brúða sem er á mörkum þess að vera barnaleikfang og kynlífsdúkka. Fyrir neðan rúmið eru Tiger Woods og fimm dvergar, sá sjötti liggur á svífandi dýnu. Samsetning myndefnisins minnir mjög á teikningar barna þar sem ólíkum hlutum er skellt saman eins og ekkert sé sjálfsagðara. Óvæntar tengingar mynda skemmtilegt, súrrealískt samhengi líkt og kubbum úr nokkrum púsluspilum hafi verið raðað saman til að skapa nýja heild. Systurnar leika sér einnig með endurtekningar og mála stundum myndir sínar inn í aðrar myndir. Titlarnir Mynd í mynd og Mynd í mynd í mynd í mynd segja allt sem segja þarf hvað þetta varðar!

Sýningin nýtur sín ágætlega í rýminu en efri salur ASÍ er einstaklega bjartur og fallegur.
Í arinstofu hafa systurnar komið upp nokkurs konar eftirlíkingu af vinnustofu sinni. Þar má
sjá trönur, liti og ótal hluti sem koma fyrir í myndunum. Innsetningin bætir því heilmiklu við
sýninguna og skapar vinalegt andrúmsloft. Eins og fyrr segir eru listaskonurnar ekki að setja sig á neinn stall sem slíkar. Þær hafa mikinn húmor og virðast vinna vel saman. Sjálfar segjast þær frekar ólíkar og geta verið mjög ósammála fyrir utan vinnustofuna. Hins vegar séu þær sammála hvað varði listina.

Ljóst er að málverk systranna höfða til allra aldurshópa, jafnt þeirra sem gleðjast yfir
að sjá Súperman eða Mjallhvíti og þeirra sem gjörþekkja listasöguna og notkun tákna. Tvö ár
eru ekki svo langur tími en afköstin eru mikil hjá systrunum og framfarirnar greinilegar. Sara
og Svanhildur hafa ótrúlegt hugmyndaflug og engar vísbendingar eru um að þær séu að lækka
flugið. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim í framtíðinni og sjá hvort þær haldi áfram
varðveislu æskunnar eða hvort þroskinn nái yfirhöndinni. Ætli Tiger Woods haldi áfram að spila?

______________________________________
1) Sara Jóhanna Vilbergsdóttir. Viðtal 28.02.2012. Kastljós – Systur mála saman. Slóð: http://www.ruv.is/sarpurinn/
kastljos/28022012/systur-mala-saman
2) Ólafur J. Engilbertsson: ,,Lífið í töfraspegli”. Sara og Svanhildur. Slóð: http://duosisters.com/?page_id=37 [sótt:
11.03.2012.]
3) Ásmundur Ásmundsson: ,,Villtur æskublómi”. Fréttablaðið. 02.02.212 , bls. 30

Heimildaskrá:

Ásmundur Ásmundsson: ,,Villtur æskublómi”. Fréttablaðið. 02.02.212.
Ólafur J. Engilbertsson: ,,Lífið í töfraspegli”. Sara og Svanhildur. Slóð:
http://duosisters.com/?page_id=37

Sara Jóhanna Vilbergsdóttir. Viðtal 28.02.2012. Kastljós – Systur mála saman. Slóð:
http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/28022012/systur-mala-saman

Mynd á forsíðu:

Sara Vilbergsdóttir og Svanhildur Vilbergsdóttir. Sex undir pari. 110×110 cm. 2010. Slóð: http://duosisters.com/?page_id=8

Comments are closed.